Ágúst Valgarð bloggar

Fimmtudagur 21.maí 2009

Uppstigning

Flokkun: fræðsla — Efnisorð: — Ágúst @ 12:18

Þeim fer fjölgandi íslendingum sem kunna ekki skil á því hvaða dagur er hvað.  Uppstigningardagur er ágætt dæmi.  Fyrstu 11 vers postulasögunnar segja frá því sem gerðist þennan dag.  Þessi vers eru auk þess bráð skemmtileg eins og margir aðrir ritningarstaðir :-)  Kíkjum aðeins á málið:

Pos 1:1-11 Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt, sem Jesús gjörði og kenndi frá upphafi,  (2)  allt til þess dags, er hann gaf postulunum, sem hann hafði valið, fyrirmæli sín fyrir heilagan anda og varð upp numinn.  (3)  Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki.  (4)  Er hann var með þeim, bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem, heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins, “sem þér,” sagði hann, “hafið heyrt mig tala um.  (5)  Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga.”  (6)  Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: “Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?”  (7)  Hann svaraði: “Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.  (8)  En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.”  (9)  Þegar hann hafði þetta mælt, varð hann upp numinn að þeim ásjáandi, og ský huldi hann sjónum þeirra.  (10)  Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum  (11)  og sögðu: “Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.”

Postulasagan er skrifuð af Lúkasi, þeim sama og skrifaði Lúkasarguðspjall.  Sagan segir að Lúkas hafi verið læknir – en það er reyndar ekkert í Biblíunni sem staðhæfir það.  Það er ein tilvitnun í  Kól 4:14 um Lúkas lækni – en ekkert afgerandi um að sá Lúkas sé sá sami og og skrifaði Lúkasarguðspjall og Postulasöguna.  Það er hinsvegar líklegt þar eð Lúkas þekkti Pál postula vel og ferðaðist með honum eins og postulasagan greinir frá.
Fyrri sagan sem Lúkas vísar til í v.1 er vitaskuld Lúkasarguðspjall.  Það er gott að lesa fyrstu vers Lúkasarguðspjalls til að fá innsýn inn í með hvaða hugarfari Lúkas nálgaðist verk sitt – ekki amalegt hugarfar þar á ferð!
Tökum eftir því hvernig Lúkas í v.2-3 rekur það sem gerðist eftir upprisu Jesú.  Hann útskýrir hvernig:
1. Jesú birtist lærisveinunum upprisinn (v.3) með óhrekjanlegum hætti í 40 daga.
2. Jesú talaði um Guðs ríki (v.3)
3. Jesú gaf postulunum (Lúkas þar á meðal) fyrirmæli um Heilagan Anda (v.2)
4. Jesú varð upp numinn (steig upp til himna – uppstigning) (v.2)
Upprisan
Í hópi lærisveinanna voru menn eins og Tómas sem var ákveðinn í því að trúa ekki einhverjum kerlingarsögum um upprisu dauðra – hann var ákveðinn í því að trúa bara því sem hann gæti sannreynt sjálfur og þreifað á.  Þú getur lesið um Tómas í Jóh 20:25-29.  Það er því beinlínis rangt að halda því fram að að lærisveinarnir hafi verið auðtrúa – auk þess getur Nýja Testamentið (NT) þess einnig að sumir af lærisveinunum efuðust – þrátt fyrir allt sem þeir höfðu orðið vitni að!  Sjá Mat 28:17.  Niðurstaðan: Því meira sem ég skoða NT – því áreiðanlegri vitnisburður um líf Jesú finnst mér það vera.
Guðsríki
Merkilegt – Guðsríkið er það fyrsta sem Jesú talar um þegar hann byrjar þjónustu sína (Mark 1:15) og svo er það líka það seinasta sem hann segir áður en hann stígur upp til himna.  Gæti það verið að það sé mikilvægt fyrir okkur að skilja hvert eðli Guðsríkisins er, hvernig það virkar og hvernig við getum lifað sem þegnar þess?  
Það þarf engann kjarneðlisfræðing til að skilja að boðskapurinn um Guðsríkið var kjarni þess sem Jesús sagði.  Ekki nóg með það – eitt af erfiðustu verkefnum Jesú var að fá lærisveinana til að skilja hver hann raunverulega var og þar af leiðandi, hvert eðli ríkis Jesús var (og er!).  Ágætt dæmi um þetta er Mark 8:16-21 þar sem lærisveinarnir fara að rífast um það hver hefði gleymt að taka með brauð (eða eitthvað álíka gáfulegt) – en eru ekki að ná því sem Jesús er að reyna að útskýra fyrir þeim.  Stuttlega þar á eftir kemur kjarna spurning Markúsarguðspjalls (Mar 8:27) þar sem Pétur sýnir að hann hefur fengið opinberun um hver Jesús er – en þó að Pétur hafi haft þá opinberun þá skortir hann skilning á því hvernig Guðsríkið starfar.  T.d. reyndi Pétur að berjast þegar Jesú var handtekinn og sýndi þannig að hann var bara ekki að ná þessu með Guðsríkið :-( .  
Það var nefnilega þannig að lærisveinarnir voru að vonast til þess að Jesú myndi sparka rómverjunum út og stofna nýtt Ísraelsríki þar sem þeir myndu fá feit embætti með Jesú.  Þetta sjáum við einmitt svo vel í 1. kafla postulasögunar í v.6 – þar sem lærisveinarnir eru ENNÞÁ – jafnvel eftir að hafa verið með Jesú í 3 ár, horft á hann krossfestann, hitt hann upprisinn OG heyrt hann tala um Guðsríkið eftir upprisuna – ENNÞÁ eru þeir með það fast í hausnum á sér að Guðsríkið verði veraldlegt ríki sem byrji á því að sparka rómverjunum út og setja þá í embætti!  Alveg hreint magnað.  Ástæðan fyrir þessu er mjög líklega sú hvernig samtími þeirra var mótaður af orðum Daníelsbókar ofl. ritningarstaða um það hvernig ríki Guðs við komu Messíasar yrði.  Annars er nánari umfjöllun um Guðsríkið of langt mál til að tíunda nánar hér – það er efni í margar bloggfærslur.
Fyrirmæli um Heilagan Anda
Lúkas útskýrir svo í v.4 og 8 hver þessi fyrirmæli voru.  Að þeir ættu að bíða í Jerúsalem þangað til Guð úthellti Heilögum Anda yfir þá.  Það er margt sem mætti segja um þetta sem of langt mál væri að fara út í hér – eitt má þó nefna: Það er klárt að Jesú vill ekki að einhver sé fulltrúi Guðsríkis nema viðkomandi hafi hlotið þetta fyrirheiti um Heilagan Anda.
Uppstigning
En nú að uppstigningunni sjálfri.  Eins og áður sagði er það hálf kómískt hvernig lærisveinarnir eru enn að vonast eftir veraldlegu ríki (Pos 1:6) – einmitt á þessu síðasta augnabliki þeirra með hinum upprisna Jesú.  Þess má geta svona í framhjáhlaupi, að það hversu heiðarlega Lúkas segir frá þessum treglegheitum lærisveinnanna eykur mjög áreiðanleika og trúverðugleika textans.  Eina mögulega ástæðann fyrir því að Lúkas segir frá þessu er einfaldlega sú að ÞETTA GERÐIST – lærisveinarnir voru einfaldlega svona tregir að skilja hvað Jesú var að segja hvað þetta varðar.
Jesú vísar þessu frá (v.7) – segir að þetta sé röng spurning hjá þeim – þetta er ekki það sem þið skuluð hafa fókus á núna strákar.  Svo kemur eitt af þessum stóru “EN” í ritningunni!  Í v.8 kemur það sem þeir ÆTTU að hafa fókusinn á.  
Svo, að þeim ásjáandi (Lúkas getur þess sérstaklega!), er Jesú numinn upp til himna.  Svo standa þeir þarna og glápa eins og álkur upp í loftið :-)  Aftur er textinn kómískur – tveir englar koma og spyrja þá (v.11) hvað þeir séu eiginlega að glápa þarna upp í loftið?  Og svo kemur fyrirheiti um endurkomu Jesú Krists.  
Fyrirheitið um endurkomu Jesú Krists er mikilvægt – því miður hafa ýmsir trúarhópar komið óorði á endurkomu Krists með ótímabærum spádómum og óábyrgri meðhöndlun á NT.  Það breytir ekki staðreyndum málsins – Jesús kemur aftur á þeim degi þegar málin eru gerð upp.  Sem betur fer eigum við góðan Guð sem lætur ekki hið illa vaða um endalaust án þess að það komi að þeim punkti þegar hið illa er stoppað af og málin gerð upp – það er á þeim punkti sem Jesú kemur aftur.
Þessi frásögn í postulasögunni ber þess merki svo ekki er um að villast að hún er skrifuð af fyrstu hendi, hún er rituð af einhverjum sem var á staðnum og upplifði þessa atburði – þess vegna eru þarna hlutir eins og tregða lærisveinanna, kómískar athugasemdir ofl.
Þegar við tökum NT og virkilega lesum það yfir, þá spretta frásagnir eins og þessi upp eins og gorkúlur allt í kring – NT er hreint frábært!
En allavega, núna veistu a.m.k. hvað gerðist á uppstigningardag eins og það kom Lúkasi fyrir sjónir.  Njóttu dagsins og hugsaðu til himins :-)

Knúið með WordPress